Eldfjallapallur í Hlíðarfjalli

Íslensku vetrarleikarnir á Akureyri ná hámarki um næstu helgi með stórsýningu á svokölluðum eldfjallapalli í Hlíðarfjalli á föstudagskvöld og Meistaramóti Íslands á snjóbrettum á laugardag.

Skorað er á bæjarbúa og gesti bæjarins að fjölmenna í Hlíðarfjall á föstudagskvöld til að verða vitni að litríkri keppni og sýningu með tilheyrandi flóðlýsingu og trumbuslætti. Íslenskir snjóbrettakappar leika listir sínar og heimsþekktir atvinnumenn mætast í einvígi Evrópu og Norður-Ameríku á risastórum eldfjallastökkpalli sem reistur hefur verið sunnan við Fjarkann, stóru stólalyftuna. Þetta er hæsti stökkpallur þessarar gerðar sem reistur hefur verið á Íslandi og þarf mikla leikni og hugrekki til að þora að fljúga fram af honum. Einnig verður boðið upp á skíðastökk með frjálsri aðferð og vélsleðastökk og vélsleðaspyrnu.

Boðið verður upp á ókeypis rútuferðir til og frá Hlíðarfjalli og rjúkandi heitt frítt kakó handa gestum. Þetta kvöld verður opið í Fjarkann til kl. 22.30. Almenn vetrarkort gilda og kort sem keypt hafa verið yfir daginn. Þeir sem mæta eftir kl. 19 og vilja taka sér far með Fjarkanum, geta keypt sérstök lyftukort gegn vægu verði en þau gilda til kl. 22.30 eða þar til dagskránni í Hlíðarfjalli lýkur.

Meistaramót Íslands á snjóbrettum og skíðum með frjálsri aðferð verður haldið í Hlíðarfjalli á laugardag frá kl. 13-16 en keppt verður í þremur flokkum. Keppni á snowcross-hjólum og snjósleðum verður haldin á sérstakri spyrnubraut við Réttarhvamm kl. 16-17 og loks stendur brettadeild Skíðafélags Akureyrar fyrir skemmtilegri þrautakeppni á rörum og boxum á Ráðhústorgi frá kl. 19-21. Keppt verður í dúndrandi stemningu með flóðlýsingu og tónlist á sérstökum pöllum sem reistir hafa verið á torginu.

Nánari upplýsingar veitir Erik Newman í síma 894 8052.