Einstakur skíðabær til að markaðssetja

https://www.akureyri.net/is/frettir/einstakur-skidabaer-til-ad-markadssetja?fbclid=IwAR0P6NUp4QTagK1YLJYPpX-znGrNgp-phrH959QHIrSsgPMG6QOcxMK7G2s

„Ég er ekki viss um að margir viti að Skíðaskólinn er einkarekinn,“ segir Vincent Drost, snjóbrettakennari og forstöðumaður Skíðaskólans í Hlíðarfjalli. „Þetta er fjórða árið sem við rekum skólann, en við fengum tækifæri til þess að taka við rekstrinum af Akureyrarbæ eftir Covid.“ Eigandi skólans er Ásdís Sigurðardóttir, en Vincent sér um daglegan rekstur.

Vincent segir að kennarar skólans séu frá ýmsum löndum og eiga það sameiginlegt að hafa góða menntun og reynslu, en í skólanum er hægt að læra á skíði, snjóbretti og gönguskíði. Einnig er boðið upp á snjóflóðanámskeið, þar sem kennt er hvernig megi forðast snjóflóð, öryggi á fjöllum og hvernig á að bera sig að við björgun. Námið er vottað af American Avalance Association. 

„Við erum með kennara frá Hollandi, Austurríki, Tékklandi og fleiri stöðum, en við erum í góðu samstarfi við kennaraskóla í vetraríþróttum í Hollandi, en þaðan kemur til okkar reynslumikið fólk sem er að klára námið. Hér geta þau komið í starfsnám þegar þau hafa fengi starfsleyfi.“ Vincent segir að þegar mest er að gera séu 15-20 manns í vinnu við Skíðaskólann. 

„Við höfum kennt fleiri nemendum í ár en nokkurn tíman áður,“ segir Vincent. „Við erum með kennslustundir fyrir krakka klukkan 10-12 og svo frá 12-16 erum við með einkakennslu. Við erum líka með kennslu fyrir fullorðna.“ Vincent bendir á heimasíðu skólans fyrir áhugasama um kennslu, Snowsports.is

Flestir sem koma í Skíðaskólann, eru frá höfuðborgarsvæðinu eða erlendis frá. „Það kom mér svolítið á óvart hvað Akureyringar nýta sér skólann lítið, til dæmis buðum við grunnskólunum á svæðinu gott tilboð, þar sem mætti koma með bekki í kennslu hingað uppeftir, en hingað til hafa bara skólar frá höfuðborgarsvæðinu nýtt sér það.“ Skólarnir á Akureyri fara í ferðir upp í fjall, en óska ekki eftir því að fá kennslu fyrir krakkana. 

Vincent segir að hann finni aðeins fyrir aukningu viðskiptavina eftir að EasyJet fór að fljúga beint til Akureyrar frá London. „Mjög stór hluti kúnnahópsins okkar eru ferðamenn. Ég sé sóknarfæri í því, að markaðssetja Akureyri betur sem skíðabæ, mér finnst að Markaðsstofa Norðurlands og ferðaskrifstofurnar gætu gert betur í því. Þetta er einstakt svæði, en kennararnir mínir, sem eru frá Austurríki, til dæmis, segja að svæðið sé frábært og algjörlega á pari við það sem þau þekkja annarsstaðar úr heiminum.“ Vincent bendir á að það sé frábær sölupunktur fyrir ferðaþjónustuna, að fólk geti flogið beint til Akureyrar og verið komnir á heimsklassa skíðastað eftir 10 mínútur frá lendingu. Hvergi annarsstaðar í Evrópu sé þetta hægt.

Vincent á rætur að rekja til Sviss, en hann starfaði áður sem kennari í hagfræði. „Ég vann alltaf sem snjóbrettakennari aukalega, þangað til ég flutti til Íslands til þess að prófa að búa hér í eitt ár. Svo kenndi ég á bretti í Japan aðeins í millitíðinni þangað til ég flutti alveg til Íslands aftur. Ég var búinn að vera að vinna hérna í Hlíðarfjalli í þrjú ár áður en við tókum við rekstrinum á Skíðaskólanum.“

„Styrkleiki okkar er bæði svæðið sjálft og hvað við erum með góða kennara,“ segir Vincent að lokum. „Ég myndi vilja sjá fleira heimafólk hjá okkur, en við getum hjálpað fólki að komast af stað í vetraríþróttum svo hægt sé að njóta til fullnustu, hvað við höfum frábæra aðstöðu hérna í Hlíðarfjalli.“