Alþjóðaskíðareglurnar og mikilvæg atriði

Tíu reglur Alþjóðaskíðasambandsins (FIS)

Öllum skíða og brettamönnum ber að fylgja svokölluðum skíðareglum og við alvarleg brot á þeim ber að vísa gestum af svæðunum.
 
1. Tillitssemi
Skíða- eða snjóbrettamaður skal hegða sér á þann hátt að hann stofni ekki öðrum í hættu, valdi óþægindum eða skaða.
2. Stjórn á hraða
Skíða- eða snjóbrettamaður skal ávallt hafa fullt vald á hraðanum. Hann skal ekki fara hraðar en geta hans leyfir og aðstæður hverju sinni, svo sem veður, færi og fjöldi í brekkunum.
3. Að velja sér leið
Sá sem kemur niður brekku eða aftan að öðrum skíða- eða brettamönnum skal velja sér leið þannig að hann stofni ekki þeim sem fyrir framan eru í hættu.
4. Framúrtaka
Fara má framúr eða framhjá öðrum skíða- eða snjóbrettamanni fyrir ofan hann eða neðan, hægra eða vinstra megin, að því tilskildu að sá sem farið er framúr eða framhjá hafi allt það svigrúm sem hann þarf.
5. Að fara inn í eða vera á merktri braut
Sá sem fer inn í merkta braut eða leggur aftur af stað eftir að hafa stansað eða sveigt upp á við skal líta vel í kring um sig og ganga úr skugga um að hann stofni hvorki sjálfum sér né öðrum í hættu.
6. Stöðvað í brekku
Skíða- eða snjóbrettamaður skal ekki stansa þar sem braut er þröng eða útsýni takmarkað nema brýna nauðsyn beri til. Ef hann fellur skal hann færa sig úr brautinni eins fljótt og hann getur.
7. Gengið upp eða niður brekku
Skíða- eða snjóbrettamenn sem fara fótgangandi upp eða niður brekku skulu ganga í jaðrinum á merktum brautum.
8. Leiðbeiningar á skiltum
Skíða- eða snjóbrettamenn skulu fara í einu og öllu eftir leiðbeiningum á skiltum sem hafa verið sett upp í brekkunum.
9. Aðstoð
Ef slys ber að höndum skulu allir veita þá aðstoð sem þeir geta.
10. Að gefa sig fram eftir slys
Allir skíða- eða snjóbrettamenn sem verða vitni eða lenda í slysi skulu gefa sig fram án tillits til þess hvort þeir bera ábyrgð á slysinu eða ekki.

Leiðbeiningar fyrir toglyftur

Myndið röð

Vinsamlegast myndið einfalda röð í diskalyftur og ekki taka fram úr. Snjóbrettafólk fer úr aftari bindingunni.

Farið í lyftu

Haldið á stöfunum í ytri hendinni og komið ykkur tímanlega fyrir. Snúið ykkur inn að lyftunni og grípið diskinn með lausri hendi.

Á leiðinni upp

Ekki setjast á diskinn. Standið upprétt, hallið ykkur aðeins upp að og látið lyftuna draga ykkur. Snjóbrettafólk setur lausa fótinn á milli bindinga.

Ekki beygja

Haltu þér í lyftusporinu undir miðjum lyftuvírnum og ekki sviga í lyftunni. Ekki sleppa of snemma þar sem þú getur ógnað öryggi þíns og annarra í lyftunni.

Ef þú dettur

Komdu þér úr lyftusporinu eins fljótt og þú getur. Aðrir í lyftunni geta oft ekki beygt framhjá.

Farið úr lyftu

Slepptu disknum beint áfram, ekki til hliðar. Ekki fara of langt. Komdu þér úr lyftusporinu í rétta átt sem fyrst.

Leiðbeiningar fyrir stólalyftur

Komið að lyftu

Vinsamlegast myndið röð og ekki ýta öðrum. Farið eftir leiðbeiningum starfsfólks. Ekki skilja eftir auð pláss til að lágmarka biðtíma. Snjóbrettafólk losar aftari fót.

Farið í lyftu

Komdu þér tímanlega fyrir og haltu á báðum stöfum í annarri hendi. Horfðu aftur og fylgstu með stólnum. Lokaðu öryggisgrindinni eftir að þú sest, meðan þú fylgist með sessunaut.

Í lyftunni

Vinsamlegast sestu kyrr, haltu skíðunum ofan á grindinni og ekki sveifla þér. Ekki kasta hlutum úr lyftunni eða reykja vegna umhverfis- og öryggissjónarmiða.

Ef lyftan stoppar

Haldið ró ykkar jafnvel þó lyftan stoppi í lengri tíma. Bíðið eftir upplýsingum frá starfsfólki. Að stökkva úr lyftunni getur verið lífsógnandi þar sem hæðarskynjun úr lyftunni blekkir verulega.

Áður en stigið er úr

Komdu þér fyrir tímanlega. Ekki lyfta öryggisgrindinni fyrr en þú kemur að skiltinu og lyftu framendanum á skíðunum upp.

Farið úr lyftu

Farðu úr lyftunni réttu megin og farðu strax úr afstíginu. Þeir sem stöðva þar ógna öryggi þeirra sem á eftir koma.