Akureyringum býðst Lýðheilsukort

Bæjarstjórn Akureyrar hefur samþykkt að bjóða barnafjölskyldum og eldri borgurum með lögheimili í sveitarfélaginu sérstakt Lýðheilsukort gegn bindingu í eitt ár. Um er að ræða tilraunaverkefni sem veitir handhöfum kortsins ótakmarkaðan aðgang að Sundlaugum Akureyrar, Hlíðarfjalli og Skautahöllinni á Akureyri.

Kortin verða til sölu frá 10. nóvember 2022 til 1. maí 2025 og gilda í eitt ár frá kaupdegi. Að sölutímabili loknu verður árangur af tilraunaverkefninu metinn og tekin ákvörðun um hvort halda skuli áfram á sömu braut.

Meginmarkmið með útgáfu kortanna er að bæta lýðheilsu í heilsueflandi samfélagi með sérstaka áherslu á aukna samveru foreldra, barna og ungmenna undir 18 ára aldri, auk eldri borgara og öryrkja.

Lýðheilsutilboðinu verður hlaðið inn á hin svokölluðu Skidata-kort sem verið hafa í notkun í Hlíðarfjalli og Sundlauginn á Akureyri. Lesara fyrir kortin verður komið upp í Skautahöllinni eins fljótt og auðið er. Vakin er athygli á því að þau sem ekki eiga skidata-kort nú þegar þurfa að kaupa það sérstaklega en slíkt kort kostar 1.100 kr. Afhending og virkjun lýðheilsukorta fer alfarið fram hjá Sundlaug Akureyrar.

Bæjarbúar sem þess óska sækja um lýðheilsukort í gegnum þjónustugátt Akureyrarbæjar á heimasíðunni Akureyri.is og hefst salan sem áður segir 10. nóvember nk. Rétt er að benda á að ekki verður hægt að sækja um eða kaupa Lýðheilsukortið í Sundlaug Akureyrar. Umsókn og val um greiðsluleið mun alfarið fara fram í gegnum þjónustugátt Akureyrarbæjar. Nánari upplýsingar um lýðheilsukortið má finna hér

 Lýðheilsukort má sækja um hér

 

Verðskrá gegn bindingu í 12 mánuði:

Lýðheilsutilboð

Mánaðargjald

Samtals á ári

Tveir foreldrar og barn/börn þeirra yngri en 18 ára

8.613 kr.

103.350 kr.

Eitt foreldri og barn/börn þess yngri en 18 ára

5.342 kr.

64.100 kr.

Eldri borgarar (67 ára og eldri)

2.183 kr.

26.200 kr.