https://www.mbl.is/fjolskyldan/frettir/2024/02/11/asdis_hefur_kennt_yfir_1_000_bornum_ad_skida/?utm_term=Autofeed&utm_campaign=smartland&utm_medium=Social&utm_source=Facebook&fbclid=IwAR2UWMdc9BFAcTiXdkdO44-SIzZsDgp3b2HcURoJaeMxsU9s5o_1X4URs1c#Echobox=1707635336
Ég sit og horfi yfir skíðasvæðið, það er fallegt. Hér er mikið af duglegu fólki í brekkunni á þessum föstudegi,“ sagði Ásdís Sigurðardóttir þegar blaðamaður sló á þráðinn rétt eftir hádegi.
Ásdís Sigurðardóttir, eigandi og umsjónaraðili Skíða- og brettaskólans í Hlíðarfjalli, elskar fátt meira en snævi þaktar fjallshlíðar. Þá má grípa í skíðin. Ásdís býr yfir margra ára reynslu á íþróttasviðinu sem lærður íþróttakennari, en síðustu ár hefur hún einbeitt sér að þjálfun barna á skíðum, enda rótgróin skíðamenning norður í landi. Þrátt fyrir að flestir skíðanemendur Ásdísar séu börn og unglingar, þá hittir hún reglulega áhugasama einstaklinga í eldri kantinum sem vilja ólmir læra listina að skíða og er því mikið líf, fjör og fjölbreytni í brekkunni. Ásdís sagði okkur örlítið frá lífinu í Hlíðarfjalli.
Ásdís hefur alla tíð elskað að vera á skíðum, alveg frá blautu barnsbeini. „Sko, ég er fædd og uppalin á Siglufirði og það þýðir bara eitt, að maður hefur alltaf kunnað að renna sér,“ segir Ásdís og hlær.
Hún hefur lengi kennt ungum sem öldnum á skíði, eða í tæpan áratug. Fyrirtæki hennar, Iceland Snowsports, alþjóðlegur kennsluskóli, tók við rekstri Skíða- og brettaskólans í Hlíðarfjalli fyrir örfáum árum en það gerðist eftir ævintýraferð hennar til Japans. „Markmiðið var að ná þessu fyrir fimmtugt og það hafðist,“ segir Ásdís sem vildi ólm kenna á skíði erlendis fyrir fimmtugsafmælisdaginn og var það efst á hinum svokallaða „fyrir fimmtugt-lista“.
„Ég hélt til Japan í ársbyrjun 2020 þar sem ég kenndi á skíði. Stoppið varð þó styttra en ég hafði upphaflega ætlað mér og var það vegna kórónuveirunnar, en þegar ég kom heim ákvað ég að opna eigin skíða- og brettaskóla í Hlíðarfjalli,“ útskýrir Ásdís. „Ég náði að bóka einn kúnna eftir að ég tók við rekstrinum af Akureyrarbæ, enda korter í lokun vegna kórónuveiru á Íslandi, og þá var skíðasvæðinu lokað. Ég tók því formlega við skólanum veturinn eftir og hef verið með hann alla daga síðan,“ segir hún.
Áður en Ásdís tók við rekstri skíðaskólans þá sá Akureyrarbær um rekstur skólans. „Bærinn rak skólann í mörg ár, ég er að vísu ekki alveg með það á hreinu í hversu mörg ár, 15 til 20, ef ég á að giska,“ segir Ásdís. „Það hafa því margir lært á skíði hér á Hlíðarfjalli, en svo ákvað Akureyrjarbær að bjóða út, fyrst allt svæðið í heild sinni, en það var enginn sem vildi það, svo því var breytt,“ segir Ásdís sem ákvað þá að stökkva til.
Það hefur lengi verið mikil skíðamenning á Akureyri og heimamenn verið mjög duglegir að fara á skíði. Það er samt að breytast að sögn Ásdísar. „Íþróttin er og hefur alltaf verið vinsæl hér, ég hugsa að það stafi meðal annars af hefðinni og umstanginu í kringum Andrésar Andar leikana,“ segir hún, en leikarnir hafa verið árviss viðburður frá því 1976.
Eru allir skíðandi á Akureyri?
„Nei, nei, nei, alls ekki,“ segir Ásdís. „Þetta er samt fjölskyldusport sem smitast mjög auðveldlega. Það hefur verið öflugt skíðastarf hér á Akureyri og skíðaskólinn alltaf verið vinsæll, en í dag eru þetta ekki lengur bara Akureyringar í fjallinu, landslagið er að breytast. Fólk er að fljúga til Akureyrar frá Hollandi, Bretlandi og Sviss. Við fáum til að mynda mikið af útlendingum í kennslu til okkar. Ég rek einnig skíðaleiguna í fjallinu og við sem erum þarna finnum mikið fyrir þessari aukningu ferðamanna í fjallið,“ segir Ásdís.
Það er stór og góður hópur sem starfar hjá Skíða- og brettaskólanum í Hlíðarfjalli. „Við erum með flott lið skíðakennara og fólk alls staðar að úr heiminum,“ segir Ásdís. „Hjá okkur starfar 15 manna teymi en yfir álagstíma, eins og vetrar- og páskafrí, þá vantar okkur að bæta við aukahöndum,“ útskýrir hún.
Í skólanum er boðið upp á námskeið alla föstudaga, laugardaga og sunnudaga en einka- og aukatímar eru einnig í boði. Á frídögum, þegar aukahendur aðstoða skíðakennara skólans, er kennt á hverjum degi, það er ef að veður leyfir.
„Á dögum sem slíkum höfum við tekið á móti 100 til 130 krökkum í kennslu á tveimur klukkustundum. Í svoleiðis verkefni þarf 15 kennara og alls kyns hjálparhendur, við þurfum gott fólk sem skíðar á eftir hópunum og aðra hjálparliða, enda eru farnar ansi margar klósettferðir á svona annasömum dögum,“ segir Ásdís og hlær. „Það munar rosalega að hafa þessar hjálparhendur, við elskum að kenna þessum fjölda að skíða og viljum að sjálfsögðu að allt sé gert rétt frá byrjun,“ segir hún, en Ásdís hefur á sínum kennslutíma kennt yfir 1.000 börnum að skíða.
Hvað er grundvallaratriði þegar kemur að skíðakennslu?
„Það eru mjög margir foreldrar sem kenna börnum sínum eingöngu að renna en það er grundvallaratriði að þau læri að stoppa. Það er mikilvægt að læra það rétt í byrjun og við leggjum mikla áherslu á það, eins og allt annað sem við kennum. Við byrjum alltaf á að kenna nemendum okkar að renna sér í plóg, en út frá því er hægt að stjórna hraðanum og læra frekari skíðahreyfingar.“
Hugsunarhátturinn „þetta reddast“ hefur lengi einkennt Íslendinga og hefur Ásdís tekið eftir því þegar kemur að eldri byrjendum í sportinu. „Fólk sem býr annars staðar í Evrópu er vant því að fara til Austurríkis í skíðaskóla í eina viku. Þar lærir það fullkomna skíðatækni á engum tíma,“ útskýrir Ásdís. „Það er aðeins annar hugsunarháttur hér heima. Íslendingar hugsa alltaf þannig að þeir geta allt sjálfir, kunna allt strax og byrja í brekkunni en gera ótal vitleysur sem er síðan mjög erfitt að ná úr þeim þegar þeir ákveða að kíkja til okkar og læra rétta skíðatækni,“ segir Ásdís.
„Við erum ekki alveg nægilega dugleg að sækja okkur kennslu hér á Íslandi, en margir eru á því að kunna að renna beint niður og stoppa sé nóg til að skíða. Það er margt fleira sem þarf að læra og kunna. Sjálf reyni ég að sækja mér skíðakennslu einu sinni á ári til að halda mér við, þetta skiptir máli,“ útskýrir hún.
Er alltaf hægt að læra að skíða?
„Já, ekki spurning. Elsti kúnninn minn í fyrra var 72 ára gamall. Það var mjög gaman að sjá hann skíða. Flestir sem koma á námskeið til okkar eru á aldursbilinu fimm til fimmtán ára, það er mjög gott að byrja að læra á skíði í kringum fimm ára aldurinn. Það tekur flesta einn til tvo klukkutíma að læra grunnhreyfingar og eftir það er komið öryggi til að fara í brekkuna.“