Ásdís hefur kennt yfir 1.000 börnum að skíða

https://www.mbl.is/fjolskyldan/frettir/2024/02/11/asdis_hefur_kennt_yfir_1_000_bornum_ad_skida/?utm_term=Autofeed&utm_campaign=smartland&utm_medium=Social&utm_source=Facebook&fbclid=IwAR2UWMdc9BFAcTiXdkdO44-SIzZsDgp3b2HcURoJaeMxsU9s5o_1X4URs1c#Echobox=1707635336

Ég sit og horfi yfir skíðasvæðið, það er fal­legt. Hér er mikið af dug­legu fólki í brekk­unni á þess­um föstu­degi,“ sagði Ásdís Sig­urðardótt­ir þegar blaðamaður sló á þráðinn rétt eft­ir há­degi. 

Ásdís Sig­urðardótt­ir, eig­andi og um­sjón­araðili Skíða- og bretta­skól­ans í Hlíðarfjalli, elsk­ar fátt meira en snævi þakt­ar fjalls­hlíðar. Þá má grípa í skíðin. Ásdís býr yfir margra ára reynslu á íþrótta­sviðinu sem lærður íþrótta­kenn­ari, en síðustu ár hef­ur hún ein­beitt sér að þjálf­un barna á skíðum, enda rót­gró­in skíðamenn­ing norður í landi. Þrátt fyr­ir að flest­ir skíðanem­end­ur Ásdís­ar séu börn og ung­ling­ar, þá hitt­ir hún reglu­lega áhuga­sama ein­stak­linga í eldri kant­in­um sem vilja ólm­ir læra list­ina að skíða og er því mikið líf, fjör og fjöl­breytni í brekk­unni. Ásdís sagði okk­ur ör­lítið frá líf­inu í Hlíðarfjalli. 

Vildi kenna á skíði úti í heimi

Ásdís hef­ur alla tíð elskað að vera á skíðum, al­veg frá blautu barns­beini. „Sko, ég er fædd og upp­al­in á Sigluf­irði og það þýðir bara eitt, að maður hef­ur alltaf kunnað að renna sér,“ seg­ir Ásdís og hlær. 

Hún hef­ur lengi kennt ung­um sem öldn­um á skíði, eða í tæp­an ára­tug. Fyr­ir­tæki henn­ar, Ice­land Snow­sports, alþjóðleg­ur kennslu­skóli, tók við rekstri Skíða- og bretta­skól­ans í Hlíðarfjalli fyr­ir ör­fá­um árum en það gerðist eft­ir æv­in­týra­ferð henn­ar til Jap­ans. „Mark­miðið var að ná þessu fyr­ir fimm­tugt og það hafðist,“ seg­ir Ásdís sem vildi ólm kenna á skíði er­lend­is fyr­ir fimm­tugsaf­mæl­is­dag­inn og var það efst á hinum svo­kallaða „fyr­ir fimm­tugt-lista“. 

„Ég hélt til Jap­an í árs­byrj­un 2020 þar sem ég kenndi á skíði. Stoppið varð þó styttra en ég hafði upp­haf­lega ætlað mér og var það vegna kór­ónu­veirunn­ar, en þegar ég kom heim ákvað ég að opna eig­in skíða- og bretta­skóla í Hlíðarfjalli,“ út­skýr­ir Ásdís. „Ég náði að bóka einn kúnna eft­ir að ég tók við rekstr­in­um af Ak­ur­eyr­ar­bæ, enda kort­er í lok­un vegna kór­ónu­veiru á Íslandi, og þá var skíðasvæðinu lokað. Ég tók því form­lega við skól­an­um vet­ur­inn eft­ir og hef verið með hann alla daga síðan,“ seg­ir hún. 

Fallegt útsýni.
Fal­legt út­sýni. Ljós­mynd/​Aðsend

Mik­il skíðamenn­ing norður í landi

Áður en Ásdís tók við rekstri skíðaskól­ans þá sá Ak­ur­eyr­ar­bær um rekst­ur skól­ans. „Bær­inn rak skól­ann í mörg ár, ég er að vísu ekki al­veg með það á hreinu í hversu mörg ár, 15 til 20, ef ég á að giska,“ seg­ir Ásdís. „Það hafa því marg­ir lært á skíði hér á Hlíðarfjalli, en svo ákvað Ak­ur­eyrj­ar­bær að bjóða út, fyrst allt svæðið í heild sinni, en það var eng­inn sem vildi það, svo því var breytt,“ seg­ir Ásdís sem ákvað þá að stökkva til. 

Það hef­ur lengi verið mik­il skíðamenn­ing á Ak­ur­eyri og heima­menn verið mjög dug­leg­ir að fara á skíði. Það er samt að breyt­ast að sögn Ásdís­ar. „Íþrótt­in er og hef­ur alltaf verið vin­sæl hér, ég hugsa að það stafi meðal ann­ars af hefðinni og umstang­inu í kring­um Andrés­ar And­ar leik­ana,“ seg­ir hún, en leik­arn­ir hafa verið ár­viss viðburður frá því 1976. 

Eru all­ir skíðandi á Ak­ur­eyri?

„Nei, nei, nei, alls ekki,“ seg­ir Ásdís. „Þetta er samt fjöl­skyldu­sport sem smit­ast mjög auðveld­lega. Það hef­ur verið öfl­ugt skíðastarf hér á Ak­ur­eyri og skíðaskól­inn alltaf verið vin­sæll, en í dag eru þetta ekki leng­ur bara Ak­ur­eyr­ing­ar í fjall­inu, lands­lagið er að breyt­ast. Fólk er að fljúga til Ak­ur­eyr­ar frá Hollandi, Bretlandi og Sviss. Við fáum til að mynda mikið af út­lend­ing­um í kennslu til okk­ar. Ég rek einnig skíðal­eig­una í fjall­inu og við sem erum þarna finn­um mikið fyr­ir þess­ari aukn­ingu ferðamanna í fjallið,“ seg­ir Ásdís. 

„Ansi marg­ar kló­sett­ferðir“

Það er stór og góður hóp­ur sem starfar hjá Skíða- og bretta­skól­an­um í Hlíðarfjalli. „Við erum með flott lið skíðakenn­ara og fólk alls staðar að úr heim­in­um,“ seg­ir Ásdís. „Hjá okk­ur starfar 15 manna teymi en yfir álags­tíma, eins og vetr­ar- og páskafrí, þá vant­ar okk­ur að bæta við auka­hönd­um,“ út­skýr­ir hún. 

Í skól­an­um er boðið upp á nám­skeið alla föstu­daga, laug­ar­daga og sunnu­daga en einka- og auka­tím­ar eru einnig í boði. Á frí­dög­um, þegar auka­hend­ur aðstoða skíðakenn­ara skól­ans, er kennt á hverj­um degi, það er ef að veður leyf­ir. 

Það er mikið líf í Hlíðarfjalli.
Það er mikið líf í Hlíðarfjalli. Ljós­mynd/​Aðsend

„Á dög­um sem slík­um höf­um við tekið á móti 100 til 130 krökk­um í kennslu á tveim­ur klukku­stund­um. Í svo­leiðis verk­efni þarf 15 kenn­ara og alls kyns hjálp­ar­hend­ur, við þurf­um gott fólk sem skíðar á eft­ir hóp­un­um og aðra hjálp­arliða, enda eru farn­ar ansi marg­ar kló­sett­ferðir á svona anna­söm­um dög­um,“ seg­ir Ásdís og hlær. „Það mun­ar rosa­lega að hafa þess­ar hjálp­ar­hend­ur, við elsk­um að kenna þess­um fjölda að skíða og vilj­um að sjálf­sögðu að allt sé gert rétt frá byrj­un,“ seg­ir hún, en Ásdís hef­ur á sín­um kennslu­tíma kennt yfir 1.000 börn­um að skíða. 

Hvað er grund­vall­ar­atriði þegar kem­ur að skíðakennslu?

„Það eru mjög marg­ir for­eldr­ar sem kenna börn­um sín­um ein­göngu að renna en það er grund­vall­ar­atriði að þau læri að stoppa. Það er mik­il­vægt að læra það rétt í byrj­un og við leggj­um mikla áherslu á það, eins og allt annað sem við kenn­um. Við byrj­um alltaf á að kenna nem­end­um okk­ar að renna sér í plóg, en út frá því er hægt að stjórna hraðanum og læra frek­ari skíðahreyf­ing­ar.“

„Íslend­ing­ar kunna allt sjálf­ir“

Hugs­un­ar­hátt­ur­inn „þetta redd­ast“ hef­ur lengi ein­kennt Íslend­inga og hef­ur Ásdís tekið eft­ir því þegar kem­ur að eldri byrj­end­um í sport­inu. „Fólk sem býr ann­ars staðar í Evr­ópu er vant því að fara til Aust­ur­rík­is í skíðaskóla í eina viku. Þar lær­ir það full­komna skíðatækni á eng­um tíma,“ út­skýr­ir Ásdís. „Það er aðeins ann­ar hugs­un­ar­hátt­ur hér heima. Íslend­ing­ar hugsa alltaf þannig að þeir geta allt sjálf­ir, kunna allt strax og byrja í brekk­unni en gera ótal vit­leys­ur sem er síðan mjög erfitt að ná úr þeim þegar þeir ákveða að kíkja til okk­ar og læra rétta skíðatækni,“ seg­ir Ásdís. 

Það eru ýmis ævintýri í Hlíðarfjalli.
Það eru ýmis æv­in­týri í Hlíðarfjalli. Ljós­mynd/​Aðsend

„Við erum ekki al­veg nægi­lega dug­leg að sækja okk­ur kennslu hér á Íslandi, en marg­ir eru á því að kunna að renna beint niður og stoppa sé nóg til að skíða. Það er margt fleira sem þarf að læra og kunna. Sjálf reyni ég að sækja mér skíðakennslu einu sinni á ári til að halda mér við, þetta skipt­ir máli,“ út­skýr­ir hún.

Er alltaf hægt að læra að skíða?

„Já, ekki spurn­ing. Elsti kúnn­inn minn í fyrra var 72 ára gam­all. Það var mjög gam­an að sjá hann skíða. Flest­ir sem koma á nám­skeið til okk­ar eru á ald­urs­bil­inu fimm til fimmtán ára, það er mjög gott að byrja að læra á skíði í kring­um fimm ára ald­ur­inn. Það tek­ur flesta einn til tvo klukku­tíma að læra grunn­hreyf­ing­ar og eft­ir það er komið ör­yggi til að fara í brekk­una.“