Alþjóðlega skíðagöngumótið Scandinavian Cup fer fram í Hlíðarfjalli 18.-20. mars. Þetta er allra sterkasta skíðagöngumót sem haldið hefur verið hér á landi.
Scandinavian Cup er mótaröð á vegum Alþjóðaskíðasambandsins (FIS) sem haldið er á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum á hverju ári. Í ár hafa farið fram mót í Beitostölen í Noregi, Falun í Svíþjóð, Otepää í Eistlandi og mun síðasta mótið fara fram á Akureyri. Þetta er í fyrsta sinn sem Scandinavian Cup er haldið á Íslandi. Mótið er afar sterkt, en hingað mætir skíðagöngufólk sem hefur meðal annars tekið þátt í heimsbikarnum í ár.
Til leiks eru skráðir tæplega 70 skíðamenn og -konur frá Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Þýskalandi, Litháen, auk þess sem íslenska landsliðið tekur allt þátt í mótinu. Því til viðbótar má búast við fjölmennu liði þjálfara og aðstoðarfólks. Undirbúningur hefur staðið yfir í heilt ár til að kappkosta að allt gangi sem best þegar að mótahaldi kemur, en meðal annars þarf að huga að gistingu, mat, ferðalögum, áburðaraðstöðu, brautum, mótsskrifstofum, o.fl. sem ekki flokkast beint til keppnishaldins.
Aðstæður í Hlíðarfjalli eru góðar og eru brautir sérstaklega gerðar til þess að geta haldið mót af þessari stærðargráðu.
Tímasetningar og dagskrá má nálgast hér á heimasíðu mótsins.
Mótshaldarar hvetja áhugasama til að koma og berja augum marga af frambærilegustu skíðamönnum og -konum Norðurlanda og að sjálfsögðu að hvetja okkar fólk í íslenska landsliðinu.