Veturinn 2013-2014 gilda vetrarkort á skíðasvæðið í Hlíðarfjalli ofan Akureyrar einnig í þrjá daga á skíðasvæðið í Winter Park í Colorado sem er í eigu Denverborgar. Handhafar vetrarkorta í Winter Park geta á sama hátt skíðað í þrjá daga í Hlíðarfjalli. Samkomulag þessa efnis er liður í að auka tengsl Akureyrar og Denver sem hafa gert með sér vinabæjarsamband.
Skíðasvæðið í Winter Park er í Klettafjöllunum um 100 km vestur af Denverborg. Það er eitt vinsælasta skíðasvæði fylkisins og þangað flykkjast Denverbúar og annað útivistarfólk yfir vetrartímann. Svæðið nær yfir um 1.200 hektara og þar eru 25 skíðalyftur.
Stefnt er að því að opna skíðasvæðið í Hlíðarfjalli 30. nóvember og hafa opið til aprílloka. Skíðavertíðin er ámóta í Denver en gert er ráð fyrir að skíðalyfturnar í Winter Park verði ræstar 13. nóvember. Allar upplýsingar um Winter Park er að finna á heimasíðunni www.winterparkresort.com.