Gleðilegt nýtt ár og kærar þakkir fyrir árið sem var að líða !
Það er loksins komið að því, við opnum á laugardaginn 10-16 !
Snjókoman hefur áfram látið lítið á sér bera en við höfum haldið snjóframleiðslu í gangi allan sólarhringinn frá því á sunnudaginn og loksins erum við að ná að tengja saman leiðir og lyftur svo að það sé hægt að opna. Það verður þó aðeins takmörkuð opnun á neðra svæðinu fyrst um sinn en við munum halda áfram að framleiða til að bæta við í framhaldinu og auðvitað vonumst við til að fá væna sendingu af snjó sem fyrst.
Til að byrja með opnum við Fjarka, Hólabraut, Hjallabraut og Töfrateppið og skíðaleiðirnar sem verða í boði eru Andrés, Hólabraut, Hjallabraut og Töfrateppið. Enn vantar í Rennslið svo fyrst um sinn verður tenging úr Hólabraut til að komast aftur að Skíðastöðum. Kaðallyftan okkar Auður tjónaðist því miður illa þegar nýr kaðall var settur á hana fyrir jól svo hún er óvirk eins og er meðan við bíðum eftir varahlutum. Sá snjór sem er verið að ýta í brekkunum er nánast allur framleiddur og utan skíðaleiðanna sem við munum opna er lítið sem ekkert, þannig að það er engin utanbrautaskíðun í boði enn sem komið er.
Á göngusvæðinu munum við hafa Ljósahring 3,5km og Andrés 1,2km troðið en eins þar er mjög þunnt á og lítill sem enginn snjór utan brautar.
Forsalan á vetrarkortum verður framlengd til 10. janúar svo um að gera að tryggja sér kort á betra verði.
Við hlökkum til að sjá sem flesta í fjallinu á laugardaginn !