Opnun frestast áfram sökum snjóleysis

Þetta ætlar að verða erfið byrjun á vetrinum hjá okkur, við höfum reynt að framleiða snjó eins og við getum en oft hefur frost ekki verið mikið og því afkasta snjóbyssurnar ekki eins miklu. Veðurguðirnir senda óþarfa hitatölur inn á milli og virðast vera að spara hvítagullið ansi mikið þennan veturinn. Sá litli snjór sem hefur komið eftir síðustu hláku er bara rétt nóg til að gera fjallið fjarskafallegt.
 
Eins og staðan er í dag þá vantar ennþá talsverðan snjó til að geta opnað og er því enn hálfgert óvissustig, ljóst er að það verður allavega ekki opnað á föstudaginn. Frostið hefur rokkað mikið og spár standast illa svo það er ómögulegt að segja hvað við náum að framleiða mikið á næstu dögum. Við reynum þó alveg eins og við getum !
 
Okkar heitasta ósk er að ná að opna fyrir jól en við verðum að fá eina alvöru gusu af snjó til okkar svo það sé raunhæft.
 
Við munum uppfæra stöðuna áfram á næstu dögum.