Styttist í skíðavertíðina! Stefnum á að opna 17. desember ef aðstæður leyfa

Starfsfólk Hlíðarfjalls er byrjað að undirbúa opnun skíðasvæðisins og stefnt er að því að opna 17. desember. Stemningin er góð og smá sendingar af hvítum kornum hafa komið síðastliðna daga. Einnig er búið að hlaða byssurnar og þær tilbúnar til þess að puðra snjó af fullum krafti um leið og aðstæður leyfa. Við krossum fingur og erum bjartsýn á góðan vetur þrátt fyrir ríkjandi óvissu.  

Áframhaldandi aðgerðir vegna Covid.
Samtök skíðasvæða á Íslandi hafa óskað eftir upplýsingum um tilhögun á starfsemi skíðasvæða næstu mánuði. Vonumst til þess að geta birt frekari upplýsingar á næstu vikum um þær aðgerðir.

Ný lyfta!
Við höfum fengið mjög margar fyrirspurnir varðandi nýju lyftuna og er það fagnaðarefni. Vinna við hana er á lokametrunum en næstu skref er að gera öryggisprófanir og verða þær prófanir framkvæmdar af eftirlitsaðila í samráði við framleiðanda.

Sprengiturn!
Nýja lyftan býður upp á heilmikla stækkun á skíðasvæðinu. Hún nær upp í mikla hæð og fer yfir svæði sem er í töluverðum bratta. Sökum þess að skíðasvæðið stækkar þarf að hafa mikinn vara á vegna snjóflóða. Vinna er hafin við að setja upp svokallaðan sprengiturn til að koma af stað flóðum áður en þau skapa hættu. Á svæðinu starfa þrír starfsmenn sem staðist hafa próf og öðlast tilskilin réttindi til að stýra turninum. Við munum að sjálfsögðu færa ykkur frekari fréttir þegar nær dregur uppsetningu sprengiturnsins.

Eins og þið sjáið þá er nóg um að vera í að undirbúa komandi vertíð. Útivera og holl afþreying er eitthvað sem við höfum öll gott af næstu mánuðina. Vonumst til að sjá sem flesta fljótlega í brekkum Hlíðarfjalls.

Forsala verður á vetrarkortum þar til skíðasvæðið opnar og hægt er að kaupa þau á heimasíðu Hlíðarfjalls.

Hlökkum til að sjá ykkur í fjallinu