Vetrarbrautin opnuð

Gönguskíðabrautin í Hlíðarfjalli, hin svokallaða Vetrarbraut, verður formlega opnuð seinnipartinn í dag. Bæjarbúar urðu vitni að því í gærkvöldi að flóðljósin við brautina voru tendruð en þá var verið að birtustilla kastarana og kanna aðstæður. Spáð er éljagangi en Guðmundur Karl Jónsson, forstöðumaður í Hlíðarfjalli, telur engar líkur á að veður spilli útiveru og ánægju gönguskíðafólks.

"Það eru ótrúlega góð snjóalög hér efra en samt ekki nægur snjór til að opna skíðabrekkurnar alveg strax. Við þurfum að setja snjóframleiðsluna í gang til að safna í gott undirlag og það verður gert á allra næstu dögum. Við höfum gefið út að svæðið verði opnað laugardaginn 30. nóvember og það stendur þar til annað kemur í ljós. Ef eitthvað breytist þá verður það auglýst rækilega," sagði Guðmundur Karl.